18 Nóvember 2008 12:00

Fíkniefni fundust við húsleit í Reykjavík á föstudagskvöld. Sex karlar voru handteknir í þágu rannsóknar málsins en einn þeirra reyndist jafnframt vera eftirlýstur fyrir aðrar sakir. Mennirnir, sem hafa allir komið við sögu hjá lögreglu áður, eru á ýmsum aldri. Einn er á þrítugsaldri, annar á fertugsaldri, sá þriðji á sextugsaldri en hinir þrír eru undir tvítugu. Í húsinu fannst einnig talsvert af munum en talið er að þeir séu illa fengnir. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði. Við aðgerðina, sem er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna, naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunds frá tollgæslunni.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.