8 Desember 2010 12:00

Fíkniefni fundust við húsleit í fjölbýlishúsi í vesturborginni í fyrrakvöld. Um var að ræða 100 grömm af marijúana, sem var að mestu í söluumbúðum, en á sama stað var einnig lagt hald á talsvert af sterum. Húsráðandi, karl á þrítugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og játaði hann aðild sína að málinu. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.

Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.