24 Október 2007 12:00

Talsvert magn fíkniefna fannst við húsleit í fjölbýlishúsi í Breiðholti um miðjan dag í gær en talið er að um sé að ræða amfetamín, hass, LSD og kannabis. Við leitina var notast við sérþjálfaðan lögregluhund og kom hann að mjög góðum notum. Þrennt var handtekið vegna rannsóknar málsins, kona á fertugsaldri og tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fimmtugsaldri. Yfirheyrslur standa enn yfir.

Þegar lögreglan kom á vettvang var fyrrnefnd kona í íbúðinni ásamt ungri dóttur sinni og var barnaverndaryfirvöldum því gert viðvart. Móðirin var í annarlegu ástandi og með ætluð fíkniefni á sér. Þegar aðgerðir lögreglu voru hafnar komu áðurnefndir karlar að íbúðinni. Sá yngri reyndi að losa sig við ætluð fíkniefni á stigagangi hússins og kom til átaka við hann en maðurinn lét mjög ófriðlega. Þurfti að beita varnarúða og kylfu til að hemja hann.