13 Maí 2008 12:00

Fíkniefni fundust við húsleitir á tveimur stöðum í Reykjavík á föstudag en um nokkurt magn var að ræða. Í íbúð í miðborginni var lagt hald á bæði amfetamín og hass, samtals um 200 grömm, auk tveggja kannabisplantna. Á sama stað fundust 150 þúsund krónur í peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Lögreglan lagði sömuleiðis hald á amfetamín og hass í húsi í vesturbæ Reykjavíkur á föstudag en um minna magn var að ræða, eða rúmlega 30 grömm. Tveir karlar voru handteknir í tengslum við þessi mál en annar þeirra hefur játað sölu fíkniefna. Húsleitirnar voru framkvæmdar að undangengnum dómsúrskurði.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður lögreglu í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna.