18 Nóvember 2009 12:00

Fíkniefni fundust við húsleitir í tveimur íbúðum í sama húsi í miðborg Reykjavíkur í gær. Í annarri þeirra fundust um 50 grömm af marijúana en húsráðandi, karl á þrítugsaldri, hefur alloft áður komið við sögu hjá lögreglu, m.a. í fíkniefnamálum. Vegna þessa var sérsveit ríkislögreglustjóra með í för en erindið var jafnframt að birta manninum niðurstöðu dóms um nálgunarbann. Á vettvangi vaknaði grunur um að fíkniefni væri einnig að finna annars staðar í húsinu og reyndist það á rökum reist. Í íbúð annars karls á þrítugsaldri fundust sömuleiðis um 50 grömm af fíkniefnum en um var að ræða bæði hass og amfetamín. Maðurinn var sömuleiðis handtekinn en viðkomandi hefur líka áður komið við sögu hjá lögreglu.