7 Júní 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á 2 kg af marijúana og nokkrar kannabisplöntur við leit í bifreið sem stöðvuð var á Suðurlandsvegi á dögunum. Grunsemdir vöknuðu um fíkniefnamisferli þegar bifreiðin var stöðvuð við reglubundið eftirlit en sterka kannabislykt var að finna úr bifreiðinni. Tvær konur á þrítugsaldri, ökumaður og farþegi bifreiðarinnar, voru handteknar og færðar til vistunar. Í bifreiðinni var einnig ungt barn ökumannsins og var barnaverndaryfrvöldum gert viðvart vegna þess.

Í kjölfar fíkniefnafundarins var farið í húsleit á heimili annarrar konunnar. Sambýlismaður hennar var handtekinn við heimilið en í bifreið hans fannst búnaður sem lögregla ætlar að hafi verið notaður við kannabisframleiðsluna. Við yfirheyrslur viðurkenndi önnur konan aðild sína að málinu.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.