4 Apríl 2008 12:00

Fíkniefni og fjármunir fundust við húsleit í Breiðholti í gærkvöld. Talið er að um sé að ræða 70 grömm af marijúana. Einnig var lagt hald á rúmlega 600 þúsund krónur í peningum sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Karl og kona á þrítugsaldri voru handtekin vegna rannsóknar málsins. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði.

Fjögur önnur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í gær og nótt. Tveir karlar, annar á fimmtugsaldri en hinn undir tvítugu, voru handtekir í miðborginni síðdegis. Á mönnunum, sem voru báðir í annarlegu ástandi, fundust ætluð fíkniefni. Í gærkvöld var tæplega þrítugur karl stöðvaður í Breiðholti en sá var með marijúana í fórum sínum. Nokkru síðar, eða um miðnætti, var karl á líkum aldri stöðvaður í miðborginni en við leit á honum fundust einnig ætluð fíkniefni. Og snemma í morgun var rúmlega fertugur karl færður á lögreglustöð. Sá var líka tekinn í miðborginni en maðurinn var með hass í fórum sínum.