28 Október 2010 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær karlmann á þrítugsaldri eftir að nokkuð magn af þýfi og fíkniefnum fundust í hans vörslu. Má þar meðal annars nefna afsagaða haglabyssu, fimm mótorhjól og rúmlega 250 grömm af amfetamíni. Maðurinn er enn í haldi lögreglu vegna rannsóknar málsins
Að loknu góðu dagsverki ákváðu lögreglumennirnir að verðlauna sig með smá skyndibita. Vildi þá ekki betur til en svo að inni á staðnum reyndist par sem lögreglumönnum þótti ansi grunsamlegt í hegðun og ákváðu þeir því að hafa gætur á þeim. Reyndist grunur þeirra réttur því fljótlega lét parið sig hverfa af veitingastaðnum án þess að greiða reikninginn. Lögreglan hafði hins vegar ennþá sjónar á þeim og voru þau handtekin í kjölfarið. Í ljós kom að um góðkunningja lögreglunnar var að ræða og voru þau bæði eftirlýst.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.