19 Júní 2009 12:00

Þrír karlar hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 1. júlí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir eru grunaðir um aðild að innflutningi fíkniefna og peningaþvætti. Þeir hafa allir kært niðurstöðuna til Hæstaréttar en úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þremenningarnir, sem eru á þrítugs-, fimmtugs- og sextugsaldri, hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.

Rannsókn málsins er mjög viðamikil en að henni hafa komið lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum auk tollyfirvalda. Rannsóknin er einnig unnin í samvinnu við lögregluyfirvöld í nokkrum öðrum löndum.