10 Maí 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann marijúana og amfetamín við húsleit í fjölbýlishúsi í Langholtshverfinu fyrir helgina. Á sama stað var einnig lagt hald á tölvur og flatskjái, sem talið er vera þýfi. Tveir menn, sem komu akandi á vettvang, voru handteknir en annar þeirra, ökumaður bílsins, var undir áhrifum fíkniefna. Í framhaldinu var framkvæmd húsleit í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi. Þar fundust rúmlega 60 grömm af hreinu amfetamíni og á þriðja tug gramma af ofskynjunarsveppum. Einnig reyndust tvö mótorhjól vera í iðnaðarhúsnæðinu en grunur leikur á að þau séu stolin. Húsráðandi á báðum stöðum er karl á fertugsaldri en sá hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.