21 Febrúar 2014 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á fíkniefni og vopn við húsleit í íbúð fjölbýlishúss í Reykjavík í fyrradag. Um var að ræða um 200 grömm af því sem talið er vera amfetamín og kókaín, en auk þess var lagt hald á kannabisefni. Í íbúðinni fundust einnig loftskammbyssa, stálkylfa, kaststjörnur úr járni, veiðihnífar og exi, og var það sömuleiðis tekið í vörslu lögreglunnar. Á vettvangi voru þrír karlar, á þrítugs- og fertugsaldri, en þeir voru allir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Ungt barn var sömuleiðis í íbúðinni og því voru fulltrúar barnaverndaryfirvalda kallaðir á staðinn svo hægt væri að gera viðeigandi ráðstafanir í þágu þess. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði.

Aðgerðin er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna. Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.