22 Ágúst 2006 12:00
Tvö fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík í gær og nótt. Tveir voru handteknir í því fyrra en lítilræði af ætluðum fíkniefnum fannst í bifreið þeirra. Í seinna málinu var einn handtekinn eftir að smáræði af ætluðum fíkniefnum fundust í bifreið hans.
Þá fór þjófur inn í tvö sumarhús, sem eru í byggingu, og hafði verkfæri á brott með sér. Nokkuð hefur borið á því að verkfæri séu tekin ófrjálsri hendi í sumar og hvetur lögreglan fólk til að ganga frá þeim eins tryggilega og hægt er.
Í gær urðu líka fáein óhöpp þar sem fólk slasaði sig. Drengur datt á reiðhjóli og annar féll af leiktæki og leituðu báðir aðstoðar á slysadeild. Þá féll kona úr stiga en ekki er vitað um meiðsli hennar.