23 Nóvember 2006 12:00

Fimm karlmenn komu við sögu lögreglunnar í Reykjavík í fimm fíkniefnamálum í gær og nótt en í öllum tilfellum fundust ætluð fíkniefni. Fyrsta málið kom upp í úthverfi síðdegis en þar áttu tveir menn hlut að máli. Annar þeirra kom svo aftur við sögu nokkrum klukkutímum síðar og enn voru sakirnar þær sömu en viðkomandi var þá staddur í öðru úthverfi. Þriðji maðurinn var stöðvaður á svipuðum slóðum en þar var einnig um fíkniefnamisferli að ræða. Laust eftir miðnætti var fjórði maðurinn tekinn í útjaðri borgarinnar og skömmu síðar stöðvaði lögreglan fimmta manninn. Sá var staddur í austurbænum en í fórum hans fundust líka ætluð fíkniefni. Mennirnir eru flestir á þrítugsaldri og hafa allir komið við sögu hjá lögreglunni áður, mismikið þó.