2 Apríl 2008 12:00

Tveir karlar, annar um þrítugt en hinn nokkru yngri, voru handteknir í miðborginni síðdegis í gær en báðir voru með ætluð fíkniefni í fórum sínum. Mennirnir tóku afskiptum lögreglu mjög illa og höfðu í hótunum. Kom til átaka og fór svo að beita þurfti varnarúða til að hemja annan þeirra en sá hafði slegið lögreglumann í höfuðið.

Í fyrrinótt hafði lögreglan afskipti af tveimur öðrum mönnum í miðborginni. Annar var með ætluð fíkniefni í fórum sínum en hinn var með blóðugan hníf meðferðis. Mennirnir, annar á fertugsaldri en hinn um tvítugt, voru báðir færðir á lögreglustöð en sá eldri reyndist jafnframt eftirlýstur fyrir aðrar sakir.

Þrír karlar komu svo við sögu hjá lögreglu í jafnmörgum fíkniefnamálum í fyrrakvöld en þeir voru allir stöðvaðir í Breiðholti. Tveir þeirra, 17 og 20 ára, voru með marijúana í fórum sínum. Þriðji maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er einnig grunaður um fíkniefnamisferli. Sá var einnig með ýmsa hluti, m.a. nokkur greiðslukort, sem hann gat ekki gert grein fyrir.