18 Október 2006 12:00

Ellefu einstaklingar komu við sögu í fimm óskyldum fíkniefnamálum hjá lögreglunni í Reykjavík í gær og nótt. Hálffertugur karlmaður var fyrst færður á lögreglustöð eftir að ætluð fíkniefni fundust í híbýlum hans í gærmorgun. Eftir hádegið voru höfð afskipti af fimm manns, konu og fjórum körlum, sem sátu við drykkju í íbúð í úthverfi. Þau eru flest komin á miðjan aldur en í fórum tveggja þeirra fundust ætluð fíkniefni. Síðdegis stöðvaði lögreglan bíl í austurbænum en í honum voru þrír ungir menn. Á einum þeirra fundust ætluð fíkniefni.

Og eftir miðnætti voru tveir karlmenn á fertugsaldri færðir á lögreglustöð með skömmu millibili. Þeir voru stöðvaðir við akstur. Annar í austurbænum en hinn í úthverfi. Í fórum beggja fundust ætluð fíkniefni.