23 Maí 2022 16:20
Fimm sitja í gæsluvarðhaldi eftir aðgerðir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi, sem ráðist var í fyrir helgina. Lagt var hald á umtalsvert magn af marijúana, eða um 40 kg, en leitir voru framkvæmdar á allmörgum stöðum, bæði í húsum og ökutækjum. Um var að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna, auk peningaþvættis, en lögreglan tók einnig í sína vörslu ökutæki, peninga og tölvubúnað. Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, en við þær naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi. Alls voru tíu manns handteknir í þágu rannsóknarinnar og fimm úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og áður sagði, en varðhaldið er til tveggja vikna.
Rannsókn málsins miðar vel.