2 Mars 2010 12:00

Fimm líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar um helgina. Ein þeirra átti sér stað í miðborginni aðfaranótt laugardags en þá voru tvær tennur slegnar úr tvítugum pilti. Árásarmaðurinn, sem er nokkrum árum eldri, var handtekinn og færður í fangageymslu. Karlar voru bæði gerendur og þolendur í öllum málunum nema einu en þar átti í hlut kona á sjötugsaldri. Sú var handtekin eftir að hafa látið ófriðlega á öldurhúsi og bæði slegið til starfsmanna og gesta. Í öllum tilvikum nema einu kom ölvun við sögu. Undantekningin átti sér stað í kappleik á ónefndum stað á höfuðborgarsvæðinu þegar tapsár íþróttamaður gekk af velli og sló til áhorfanda. Sá síðarnefndi slasaðist ekki en var skiljanlega stórlega misboðið.