14 Desember 2006 12:00
Fimm ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Þetta voru fjórir karlmenn og ein kona. Karlmennirnir eru á þrítugs- og fertugsaldri en konan er rúmlega tvítug. Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en einn þeirra hefur ítrekað gerst sekur um þetta sama brot.
Tólf umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í gær en það þykir í minna lagi. Í einu tilviki var fólk flutt á slysadeild. Fimm voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og jafnmargir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað.
Lítið bar á hraðakstri en hálfþrítugur karlmaður var stöðvaður fyrir glannaakstur í Breiðholti. Sá ók á 68 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 30. Viðkomandi á sekt og ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Þá var karlmaður á fertugsaldri handtekinn í miðbænum í gærkvöld. Sá hafði tekið að sér umferðarstjórn óumbeðinn en þess skal getið að maðurinn var ölvaður.