23 Febrúar 2007 12:00

Fimm ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt en þeir voru stöðvaðir í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og á Kjalarnesi. Þetta voru fjórir karlmenn, þrír á þrítugsaldri og einn á sextugsaldri, og fertug kona. Sá sem var tekinn í Reykjavík, 21 árs piltur, lenti í umferðaróhappi á hringtorgi á Vesturlandsvegi nokkru eftir hádegi. Bíll hans hafnaði utan vegar en með piltinum í för voru jafnaldri hans og 18 ára stúlka. Meiðsli allra voru talin minniháttar. Piltarnir hlupu af vettvangi og út í móa en lögreglumenn fundu þá skömmu síðar þar sem þeir reyndu að fela sig. Ökumaðurinn hefur margoft áður gerst sekur um umferðarlagabrot.

Sá sem var stöðvaður í Mosfellsbæ síðdegis, rúmlega fimmtugur karlmaður, tók afskiptum lögreglu ekki vel. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum og var því veitt eftirför nokkurn spöl. Lögreglan þurfti að lokum að aka í veg fyrir bíl mannsins til að stöðva för hans. Ökumaðurinn hefur lítillega komið við sögu hjá lögreglu áður. Hinir þrír ökumennirnir voru stöðvaðir í nótt en þeir hafa allir gerst sekir um umferðarlagabrot áður. Sá sem var tekinn á Kjalarnesi, 22 ára karlmaður, keyrði út í skurð og hlaust af því nokkurt tjón. Hann var á stolnum bíl.