2 Febrúar 2007 12:00

Fimm karlmenn á aldrinum 19-57 ára voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Einn var stöðvaður í Garðabæ síðdegis og annar í Reykjavík á sama tíma. Sá þriðji var tekinn í Mosfellsbæ um kvöldmatarleytið en hann hafði lent í umferðaróhappi og var fluttur á slysadeild. Tveir voru svo stöðvaðir í  nótt, annar í Hafnarfirði en hinn í Reykjavík.

Þrjátíu og fjórir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur, flestir á Fífuhvammsvegi og Nýbýlavegi. Karlmaður á þrítugsaldri var stöðvaður á Kringlumýrarbraut í gærkvöld en bíll hans mældist á 140 km hraða. Í nótt var tvítugur piltur stöðvaður á Vesturlandsvegi en hann ók á 135 km hraða. Þá stöðvaði lögreglan tvo ökumenn sem voru þegar sviptir ökuleyfi.

Fimmtán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er óvenju lítið og enn betri tíðindi eru þau að óhöppin voru nær öll minniháttar.