20 Október 2006 12:00

Fimm voru teknir fyrir ölvunarakstur í gærkvöld og nótt í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík. Þrír þeirra voru teknir í miðborginni, einn í vesturbænum og einn í austurbænum. Allt voru þetta karlmenn. Tveir eru hálfþrítugir, tveir á fertugsaldri og einn sextugur.

Í borginni urðu fimmtán árekstrar en ekki er vitað um nein slys á fólki. Fjórtán ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í gær en enginn þeirra var sekur um ofsaakstur. Þá var einn ökumaður stöðvaður fyrir að nota ekki bílbelti og fjórir fyrir að tala í síma án þess að vera með handfrjálsan búnað. Þá var fjölmörgum aðilum gert að færa ökutæki sín til skoðunar.