21 September 2007 12:00
Í kjölfar handtöku þriggja íslenskra manna í og við skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn í gærmorgun vegna gruns um stórfeldan innflutning fíkniefna voru tveir aðilar til viðbótar handteknir á höfuðborgarsvæðinu, einn aðili í Noregi , tveir í Danmörku og tveir aðilar í Færeyjum. Síðdegis í gær var krafist gæsluvarðhalds yfir þeim fimm sem handteknir voru hér á landi. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði fjóra þeirra í gæsluvarðhald í fjórar vikur eða til 18. október en þann fimmta í eina viku eða til 27. september. Þeir hafa allir komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála og eru á þrítugs- og fertugsaldri. Ákvarðanir um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim sem handteknir voru erlendis verða teknar síðar í dag. Ákvarðanir um beiðnir um framsal hinna handteknu verða teknar síðar. Hinir handteknu eru allir Íslendingar utan einn sem er danskur. Jafnhliða handtökunum voru gerðar húsleitir hér á landi og erlendis. Einnig var leitað í bifreiðum og einum báti hér á landi. Fíkniefni fundust í tveimur húsleitum í Danmörku og í Færeyjum. Rannsóknin teygir einnig anga sína til Hollands og Þýskalands. Íslenskir fíkniefnarannsóknarlögreglumenn hafa verið starfandi erlendis undanfarna mánuði við rannsókn þessa máls og svo verður áfram.
Bráðabirgðaniðurstöður benda til að fíkniefnapakkarnir sem fundust í skútunni séu rúmlega 60 kg. Um er að ræða amfetamín, e-töflu duft (um 14 kg) og e-töflur. E-töflurnar eru um 1800 talsins. Margt bendir til að styrkleiki fíkniefnanna sé mjög mikill.
Nákvæmnisleit í skútunni á eftir að fara fram. Í því skyni verður hún flutt landleiðina í geymslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Með aðgerðunum í gærmorgun er ákveðnum þætti málsins lokið. Yfirheyrslur eru hafnar, bæði hér á landi og erlendis, yfir sakborningum. Rannsóknin snýst nú m.a. um að upplýsa um aðild þeirra sem handteknir hafa verið.
Fíkniefnin sem fundust í skútunni á Fáskrúðsfirði.