26 Október 2013 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu rannsakað grunsemdir sem vaknað hafa um ætlaða sölu og milligöngu vændis af hálfu forsvarsmanns og starfsmanna veitingastaðar í miðbæ Reykjavíkur. Í lögregluaðgerð sl. nótt lét lögregla til skara skríða og handtók þá, sem þar voru að störfum á vegum forsvarsmanna staðarins og lokaði jafnframt staðnum og innsiglaði. Í kjölfarið voru framkvæmdar húsleitir á öðrum stöðum sem taldir eru tengjast eiganda staðarins.

Grunsemdir eru um að milliganga um sölu vændis hafi verið starfrækt á staðnum undanfarna mánuði og jafnvel misseri.

Í aðgerðum lögreglu voru fjórir starfsmenn handteknir og jafnframt eigandi staðarins.  Þá voru þrír einstaklingar handteknir grunaðir um kaup á vændi. Ein kona var handtekin vegna grunsemda um sölu fíkniefna. Sjö konur voru á staðnum og hafa þær verið yfirheyrðar sem vitni. Í kjölfar aðgerða voru starfsmenn og eigandi leiddir fyrir dómara með kröfu um gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Þeir hafa verið úrskurðaðir til að sæta gæsluvarðhaldi til 8. nóvember í þágu rannsóknar málsins.

Staðnum verður lokað um óákveðinn tíma í þágu rannsóknar málsins, en jafnframt mun leyfi staðarins verða skoðað í ljósi þessa máls.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.