12 Nóvember 2007 12:00
Fimmtán líkamsárásir voru tilkynntir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en flestar voru þær minniháttar. Fáeinir þurftu samt að leita sér aðhlynningar á slysadeild en óttast var að tveir hefðu nefbrotnað. Vert er að taka fram að meirihluti þessara tilkynntu líkamsárása átti sér stað utan miðborgarinnar. Í nokkrum tilfellum var um að ræða deilur sambýlisfólks sem lauk með handalögmálum og þá var lögreglan sömuleiðis kölluð út vegna samkvæma þar sem ástandið fór úr böndunum og gestir létu hnefana tala. Á krá í úthverfi borgarinnar var karl á miðjum aldri sleginn í rot en sá hafði gerst sekur um það eitt að reykja í dyragætt staðarins. Öðrum kráargesti líkaði það svo illa að hann tók til sinna ráða með fyrrgreindum afleiðingum.