24 Júlí 2019 09:46

Nokkur aukning er í tilkynningum til lögreglu um að einstaklingar hafi verið blekktir til að senda peninga til ýmissa „fjárfestingafyrirtækja“ á Netinu. Þetta eru svikamyllur sem auglýsa mikið á samfélagsmiðlum eins og á Facebook. Svindlararnir veigra sér ekki við að bendla nafnkunna einstaklinga við þessar auglýsingar og misnota myndir þeim tengdar til að ljá lygi sinni trúverðugleika.

Fólk sér þessar auglýsingar og ef það smellir á þær þá fer það á síður sem í fljótu bragði virðast vera fjárfestingarfyrirtæki. Þar er fólk hvatt til að skrá sig og í framhaldi fær það símtal frá tunguliprum en ágengum sölumönnum sem vilja endilega bjóða þeim pakka. Oft er fyrsta upphæðin ekki stór, kannski 250 til 300 evrur eða dollarar, en það er bara byrjunin. Í framhaldi berast önnur símtöl og flækjustig. Fólk er beðið að skanna inn og senda myndir af persónuskilríkjum og greiðslukortum. Sumir hafa lent í því að óheimilar úttektir eru gerðar á kortin þeirra enda eru svindlararnir komnir með allar upplýsingar sem að þeir þurfa. Í öðrum tilvikum halda símasölumennirnir áfram að hringja og vilja að viðkomandi fjárfesti meira og meira enda sé væntanlegur ávinningur mikill.

Á meðan eiga engar fjárfestingar sér stað. Einu aðilarnir sem græða eru svindlararnir sem eru að hirða peninga af þeim sem þeir eru að blekkja. Þeir hafa alls kyns svör og fullyrðingar á reiðum höndum til að blekkja enn frekar og eru ýtnir. Þeim er sama út í afleiðingar þeirra sem verið er að svíkja, þeir eru bara að reyna að græða sem mest. Þeir eru að leita að fólki sem er ekki vel að sér á þessu sviði, lofa miklu og eru oft með tækifæri í hlutum eins og rafmyntum eins og Bitcoin sem fólk hefur takmarkaðan skilning á. En varan skiptir litlu máli, þeir eru ekki að selja neitt, aðeins að ná í peninga á innantóm loforð. Einu peningarnir eru þeir sem er verið að svíkja út.

Þegar þessi „fyrirtæki“ eru skoðuð nánar þá fer ýmislegt grunsamlegt að koma í ljós. Oft er erfitt að finna hvar þau eru skráð, heimasíðan er ný og ýmislegt vantar sem ætti að vera þarna. Þær eru nægilega góðar til að vera fagmannlegar við fyrstu sýn. Ef einhverjar upplýsingar liggja fyrir þá kemur í ljós að fyrirtækið er skráð á eyjum í Karabíuhafi, Indlandshafi eða í Eyjaálfu. Þar eru þetta oft skúffufyrirtæki skráð á grandlaust fólk, til dæmis einhvern sem sendi inn afrit af vegabréfi sínu í öðru svindli. Þessi skráning er samt mikilvæg fyrir svindlaranna því hún gerir þeim mögulegt að fá bankaþjónustu. Svo er fyrirtækið keyrt áfram þangað til að fjöldi endurkrafa er orðin hár. Þá hverfa svikararnir tímabundið og stofna nýtt fyrirtæki. Þetta er ferli sem tekur nokkra mánuði, jafnvel hálft ár. Þegar greiðslurnar eru eltar þá fara þau oft á reikninga í ótengdum löndum sem stofnað var til á svipaðan hátt. Peningarnir staldra stutt við á þessum reikningum og fara á aðra sem eru líka jafnóðum tæmdir. Fyrir lögreglu og eftirlitsaðila er ógerningur að rekja þá og það er búið að tæma þá hvort sem er.

Nokkrir einstaklingar hafa farið illa út úr þessu og jafnvel eftir að þeir hætta að senda peninga þá halda símtölin áfram og fara jafnvel út í hótanir. Svindlararnir nota mikið netsíma þannig að þeir eru ekki endilega að hringja frá því landi sem kemur á símanúmerabirti. Oft er afar erfitt að greina í hvaða landi þeir raunverulega eru.

Svindlararnir nota oft kunnuleg nöfn annara fyrirtækja og hafa jafnvel fyrir því að skrifa jákvæðar umsagnir um fyrirtækin til að gabba þá sem skoða þetta á netinu.

Erlend löggæsluyfirvöld hafa verið að vara við þessu, sjá:

FBI – https://www.fbi.gov/news/stories/binary-options-fraud
Action Fraud UK – https://www.actionfraud.police.uk/…/investors-lose-over-87k…

Ef svindlararnir eru komnir með skönnuð skilríki og greiðslukort þá geta þeir auðveldlega misnotað þessar upplýsingar í annars konar svindli.

Góðar venjur:

• Lögregla mælist til við fólk að falla ekki fyrir slíkum gylliboðum og taka þeim með mikilli tortryggni.
• Fara varlega með allar kortaupplýsingar og skilríki. Það er ekki að ástæðulausu sem svindlararnir sækja í þessar upplýsingar.
• Ef þið sjáið auglýsingar á Facebook sem þið sjáið að eru svindl ekki hika að tilkynna þær til Facebook, með að hægri klikka efst á auglýsinguna og velja „Report Ad“ og segja að það sé „Misleading or Scam“.

Ef þið haldið að þið hafi orðið fyrir slíku svindli eða finnst eitthvað grunsamlegt sendið okkur línu á abendingar@lrh.is eða cybercrime@lrh.is