15 Apríl 2021 12:50

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upp á síðkastið fengið tilkynningar um fjárkúgunartilraunir tengdar kynferðislegu myndspjalli á netinu.

Karlmenn hafa fengið skilaboð frá erlendri konu á Instagram og þeir beðnir um að setja upp Google Hangouts spjallforrit til að ræða við konuna. Spjallið verður mjög fljótt kynferðislegt. Þegar líður á spjallið og maðurinn hefur berað sig fyrir myndavélinni er upptaka af honum sýnd í spjallglugganum þar sem konan var áður. Í kjölfarið er maðurinn krafinn um greiðslu, annars verði myndbandið sent á Facebook og Instagram vinalistana.

Þeir sem verða fyrir slíkum hótunum eru hvattir til að greiða ekki: ekkert hefst upp úr því annað en áframhald á kúgunum.

Hægt er að tilkynna um mál sem þessi í netfangið abending@lrh.is

Upplýsingar sem gott er að fylgi tilkynningunni eru m.a. Instagram reikningurinn sem fyrst var haft samband úr, netfangið á Google Hangouts reikningnum og upplýsingar um hvert á að greiða kúgaranum (reikningsnúmer).