30 Ágúst 2017 15:44

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir afgreiðslufólk á að vera sífellt á varðbergi þegar peningaseðlar eru annars vegar, en þetta er rifjað upp hér vegna nokkurra fjársvikamála sem eru nú til rannsóknar hjá embættinu. Um er að ræða tilvik þar sem greitt var fyrir vörur með 50 evrum, en ekki var um raunverulega seðla að ræða og allt eins líklegt að þeir séu úr borðspili eða viðlíka. Á meðfylgjandi mynd má sjá þrjá seðla úr fjársvikamálunum og einn fullgildan 50 evruseðil, en munurinn á þeim er mjög greinilegur. Í amstri dagsins gerast hins vegar mistök og því er afgreiðslufólk aftur minnt á að sýna aðgæslu í störfum sínum.