3 September 2020 14:40

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er nú með nokkur fjársvikamál til rannsóknar, sem öll eru af svipuðum toga. Um er að ræða fjársvik á netinu þar sem fólk hefur í góðri trú keypt síma og tölvur á sölusíðum, en seljandinn, sem segist búa utan höfuðborgarsvæðisins, lofar að senda varninginn í pósti um leið og greiðslan berst. Því miður er um fjársvik að ræða, en engir símar eða tölvur hafa borist kaupendum, en seljandinn hefur engu að síður sent þeim kvittun fyrir greiðslunni, sem er einfaldlega fölsuð!

Lögreglan varar við þess konar svikahröppum, sem og öðrum svikahröppum, og hvetur fólk til að gæta að sér í viðskiptum á netinu sem og annars staðar. Þetta á ekki síst við í þeim tilvikum þar sem óskað er eftir fyrirfram greiðslu inn á reikninga, en þá hefur kaupandinn oft ekkert í höndunum sem tryggir að hann fái umrædda vöru.