23 Október 2014 12:00

Undanfarið hafa Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist kærur og ábendingar vegna fjársvika þar sem óprúttnir aðilar virðast hafa komist inn í tölvupóstsamskipti íslenskra fyrirtækja sem eiga í viðskiptum milli landa. Hefur með þessum hætti tekist í nokkrum tilfellum að breyta greiðslufyrirmælum vegna uppgjöra á viðskiptareikningum milli aðila og beina þannig greiðslum á reikninga óviðkomandi. Lögregla brýnir fyrir þeim sem standa í viðskiptum milli landa að hafa varann á sér þegar skyndilegar breytingar verða á greiðslufyrirmælum viðskiptavina og reyna að afla staðfestingar á slíkum breytingum með öðrum hætti en tölvupósti.