26 Október 2006 12:00
Sex karlmenn komu við sögu í fjórum fíkniefnamálum hjá lögreglunni í Reykjavík í gær en í fórum þeirra allra fundust ætluð fíkniefni. Sá yngsti þeirra er 16 ára en sá elsti fertugur. Málin fjögur eru óskyld.
Sá elsti var tekinn í miðbænum undir kvöldmat en sá yngsti um svipað leyti í einu úthverfa borgarinnar. Þrír menn um tvítugt voru svo stöðvaðir í austurbænum rétt fyrir miðnætti. Bifreið þeirra vakti athygli lögreglunnar en þremenningarnir skeyttu engu um stöðvunarmerki og óku m.a. gegn rauðu ljósi. Eftir nokkra eftirför létu mennirnir svo loksins segjast. Þeir voru allir handteknir og færðir á lögreglustöð.
Þá var karlmaður á þrítugsaldri færður í fangageymslu í nótt. Bíll hans var líka stöðvaður í austurbænum en á manninum fundust sömuleiðis ætluð fíkniefni.