10 Október 2006 12:00
Fjögur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Í miðbænum var farið inn í tvö hús og tölvu stolið úr öðru en tölvu og myndavél úr hinu. Í báðum tilfellum fóru þjófarnir inn um ólæstar útidyr. Þá var stolið hluta af búslóð í húsnæði í útjaðri borgarinnar. Í austurbænum var svo stolið nokkru af munum úr ólæstum bíl.
Þá var tilkynnt um tvo bensínþjófnaði í gær en þau mál virðast upplýst. Í öðru tilfellinu átti í hlut kona um fimmtugt. Hún bar því við að hún hefði einfaldlega gleymt að borga fyrir bensínið sem hún tók. Konan lofaði að gera upp skuld sína hið snarasta. Í hinu tilfellinu var um tvo karla að ræða en þeir hafa áður orðið uppvísir að slíku háttalagi. Þeir lofuðu að gera hreint fyrir sínum dyrum við fyrsta tækifæri.
Búðaþjófnaður kom líka á borð lögreglunnar í gær. Þetta virðist vera töluvert vandamál og tjón verslunareigenda vegna þessa er mikið. Athygli vekur að það er fólk á öllum aldri sem gerist sekt um slíkt. Fatnaður og matvæli eru meðal þess sem þjófarnir ásælast en í gær var 12 ára strákur gripinn við að stela því síðarnefnda. Í slíkum tilvikum er rætt við foreldra viðkomandi en vonandi hefur ungi drengurinn lært sína lexíu.