11 Ágúst 2017 12:18

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fékk fjöldi einstaklinga á Úlfljótsvatni einkenni frá meltingarvegi í gærkvöldi og vegna þessa hefur verið opnuð fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði til að hlúa að þessum einstaklingum.

Samráðshópur skipaður starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, fulltrúum sóttvarnarlæknis, umdæmislækni sóttvarna í héraði, Rauða kross Íslands, Brunavarna Árnessýslu, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar og lögreglu komu saman til fundar um stöðuna kl. 10:00 í morgun í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi og fór yfir stöðuna.

181 einstaklingur hefur verið fluttur frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparstöðina. Af þeim hafa  63 verið með einkenni.  Enn eru að koma upp einkenni hjá nýjum einstaklingum og aðrir eru á batavegi og enn aðrir eru orðnir einkennalausir.   Engin er, eða hefur verið, alvarlega veikur þannig að til sjúkrahússinnlagnar hafi komið.  Nú er beðið niðurstöðu rannsókna á sýnum sem þegar hafa verið send Landspítala á því um hvers eðlis umrædd veikindi eru.  Fyrstu niðurstaðna er að vænta eftir miðjan dag í dag en líklegast er talið að um Noro veiru sé að ræða.

Rauði kross Íslands heldur utan um starfið í fjöldahjálparstöðinni ásamt heilbrigðisstarfsfólki og mun fylgja eftir þeim einstaklingum sem geta farið og eru einkennalausir í samráði við skátahreyfinguna en allt eru þetta skátar á samkomu þeirra og aðstandenda þeirra.  Heilbrigðiseftirlit Suðurlands er við störf á Úlfljótsvatni en hluta húsakosts skáta þar hefur verið lokað um sinn.

Viðbragðsaðilar munu funda kl. 16:00 í dag og fara yfir stöðuna ásamt skipulagningu fyrir komandi daga.