20 Maí 2020 16:17
Undanfarið hafa lögreglu borist fleiri tilkynningar um netglæpi en venjulega. Það er í samræmi við það sem er að gerast í öðrum löndum í kringum okkur. Netglæpirnir eru aðallega þrennskonar:
– Fjárfestasvindl
– Loforð um peninga
– Hótanir
Ein ástæðan sem liggur að baki er Covid-19 faraldurinn. Hann hefur valdið mörgu fólki þungum fjárhagsáhyggjum og því verður það viðkvæmara fyrir slíkum gylliboðum og getur átt á hættu að missa allt sem það á.
Í fjárfestasvindlum þá koma upp auglýsingar, oft á Facebook eða öðrum viðurkenndum samfélagsmiðlum, þar sem fólki er boðið að taka þátt í frábærum fjármögnunartækifærum, oft á sviðum rafmynta eins og Bitcoin og fólk þekkir lítið til. Glæpamennirnir veigra sér ekki við að nota fræga einstaklinga til að ljá lygi sinni trúverðugleika. Þeir stela myndum af frægu fólki og búa til fölsk viðtöl til að grípa fólk í gildruna. Síðan vilja þeir ólmir fá símasamband því þá geta þeir beitt öllum sínum sannfæringarbrellum. Þeir hvetja til að fólk fjárfesti litlu til að „byrja með“ en síðan gera þeir allt til að ná meiri og meiri peningum. Fólk stendur í þeirri trú að það sé að fjárfesta en engin raunveruleg fjárfesting liggur að baki. Glæpamennirnir eru að ræna peningunum og eru alls ekki að ávaxta neitt. Þeir senda samt alls kyns skjöl og staðfestingar með smáu letri en það er merkingarlaust og er eingöngu til að ljá lyginni trúverðugleika.
Loforð um peninga er eitt elsta form svona svindla. Þau eru framþróun frá Nígeríubréfum eins og frá Benjamín prins. Þetta geta verið loforð um arf, vinning frá fyrirtæki, lán á frábærum kjörum eða álíka. Þetta getur verið afar misvandað en reynir að fanga fólk í svikamyllur. Loforð um stórar upphæðir en fyrst þarf fólk að reiða fram ýmsar greiðslur, stimpilgjöld, fyrirframgreiddan skatt og annað því um líkt.
Einnig hefur orðið aukning í hótunum þó að það tengist ekki endilega Covid-19. Algengasta formið er að fólk fái tölvupóst þess efnis að hakkari sé búinn að taka yfir tölvuna og hafi skráð alla notkun og ætli að deila með vinum viðkomandi klámi eða öðru sem þeir segjast hafa séð viðkomandi nota. Texti þessara tölvupósta er grimmur og getur komið fólki í ójafnvægi og miðar að því að fá fólk til að greiða í óðagoti. Nær alltaf er þetta innantóm hótun, enginn hefur tekið yfir tölvuna heldur er þetta almennt orðaður fjölpóstur sem er sendur á mjög stóran hóp í þeirri von um að einhverjir greiði. Það kemur fyrir að þeir hafa með gamalt lykilorð sem þeir hafa komist yfir eða að pósturinn sé látinn líta út fyrir að koma úr tölvupósti brotaþola. Það er samt aðeins smá tölvukunnátta þar sem skeytaupplýsingum er breytt og þetta er látið líta út fyrir að koma úr póstfangi viðkomandi, en á í raun annan uppruna. Lykilorðin fá þeir úr gagnalekum og fá þá einnig netfang með.
Dæmi um texta í hótunarpósti:
„It seems that XXXXXXXXX is your password. You do not kow me and you’re probably thinking why you are getting this mail, correct?
In fact, I actually placed a malware on the adult vids (pornographic materials) website and guess what, you visited this website to have fun (you know what I mean). While you were watching videos, your internet browser initiated operating as a RDP (remote Desktop) with a key logger which gave me accessibility to your display scree as well as cam. Just after that, m software gathered all you contacts from you Messenger, FB, as well as email.“
Lögregla brýnir fyrir fólki að senda aldrei peninga því þá verða glæpamennirnir ágengari og ágengari enda er aldrei ástæða til að treysta neinu sem þeir segja. Þá getur fólk skoðað hvort að einhver sé með netföng þeirra og lykilorð á síðum eins og https://haveibeenpwned.com/
Vegna þess ástands sem skapast vegna Covid-19 þá eru þessir svindlarar að spila inn á áhyggjur og viðkvæma stöðu fólks í heiminum og Ísland er engin undantekning. Glæpamennirnir eru stöðugt að þróa aðferðir sínar og þetta er ekki tæmandi talning.
Lögreglan hvetur fólk til að vera á varðbergi og ekki senda neinum peninga sem það vita ekki hver er. Ef þið teljið ykkur vera þolanda netglæpa eða að þið fáið svona pósta þá endilega verið í sambandi við okkur á cybercrim@lrh.is, á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða á abending@lrh.is