21 Ágúst 2011 12:00
Þúsundir manna voru á Menningarnótt Reykjavíkur í miðborginni í gær og nótt. Lögreglan hafði mikinn viðbúnað og að venju hafði hún í nógu að snúast. Útköllum fjölgaði eftir því sem á leið og voru þau ekki bara bundin við miðborgina. T.d. var talsvert kvartað undan hávaða frá gleðskap í heimahúsum víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrar líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu í nótt en þær eru flestar, ef ekki allar, minniháttar. Einhverjir fengu að gista í fangageymslunni við Hverfisgötu en þar hefur oft verið fjölmennara.
Eins og venjulega naut lögreglan aðstoðar ýmissa aðila á Menningarnótt, m.a. björgunarsveitarmanna. Samstarfið gekk mjög vel og eru hlutaðeigandi aðilum færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina.