20 Ágúst 2012 12:00
Þúsundir manna voru á Menningarnótt Reykjavíkur í miðborginni um helgina en talið er að gestir hafa verið um 80 þúsund þegar mest var á laugardagskvöldið. Lögreglan hafði mikinn viðbúnað og að venju hafði hún í nógu að snúast en útköllum fjölgaði eftir því sem á leið. Starfsmenn umferðardeildar höfðu t.d. í mörg horn að líta en sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Að venju var talsvert um að ökutækjum væri illa og/eða ólöglega lagt í og við miðborgina og í einhverjum tilvikum þurfti að fjarlægja ökutæki af vettvangi með dráttarbíl. Sumir ökumenn áttu líka erfitt með að virða lokanir gatna. Að öllu samanlögðu verður þó ekki annað sagt en að umferðin hafi gengið bara nokkuð vel á Menningarnótt.
Eins og venjulega naut lögreglan aðstoðar ýmissa aðila á Menningarnótt, m.a. björgunarsveitarmanna. Samstarfið gekk mjög vel og eru hlutaðeigandi aðilum færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina.