4 Nóvember 2016 18:39

Þrír karlar og ein kona voru í gærkvöld í héraðsdómi Reykjaness úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið var handtekið í tengslum við rannsókn lögreglu á eldsvoða í Hafnarfirði aðfaranótt þriðjudags. Það var um kl. 2 aðfaranótt 1. nóvember sl. að elds varð vart í húsnæði að Dalshrauni í Hafnarfirði, en svo virðist sem kveikt hafi verið í umræddu húsnæði með því að brjóta rúðu og henda þar inn öflugum sprengield, sem sprakk innandyra með þeim afleiðingum að eldur kviknaði. Mjög miklar skemmdir urðu á húsnæðinu.

Í þágu rannsóknarinnar voru í gær framkvæmdar húsleitir á sjö stöðum og fimm handteknir, sem allir eru grunaðir um aðild að málinu. Fjórir þeirra hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og áður sagði, en fimmti maðurinn er nú laus úr haldi lögreglu. Við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að um kl. 2 aðfaranótt 1. nóvember sl. komu tveir menn saman á torfærumótorhjóli að Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Þeir brutu rúðu og hentu þar inn öflugum sprengield eða tívolibombu sem sprakk og laus varð eldur í húsnæðinu. Mennirnir óku á brott á hjólinu. Hafi einhver orðið var við akstur torfærumótorhjóls í Hafnarfirði eða nágrenni á áðurnefndum tíma óskar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir upplýsingum þar um. Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444 1000 eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.