24 Júní 2020 15:25
Fjórir ökumenn eiga ökuleyfissviptingu yfir höfði sér eftir að lögreglan var við hraðamælingar á Garðahraunsvegi (gamli Álftanesvegurinn) í Garðabæ í gærmorgun. Þarna er leyfður hámarkshraði 30, en sá sem hraðast ók af fjórmenningunum mældist á 91 km/klst. Nokkrir ökumenn til viðbótar voru staðnir að hraðakstri og fá þeir sekt fyrir vikið. Þess má enn fremur geta að Garðahraunsvegi hefur verið breytt í botnlangagötu og virðist það vefjast fyrir mörgum. Af því leiðir að jafnframt er hægri beygja frá Herjólfsbraut og austur Garðahraunsveg nú bönnuð og gengur ökumönnum misvel að virða það jafnvel þótt að allar hefðbundnar merkingar þar um séu til staðar.