2 Október 2009 12:00

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Þrír voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Mosfellsbæ. Þetta eru allt karlar en þrír þeirra eru á þrítugsaldri og sá fjórði á fimmtugsaldri. Tveir þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna sem báðir voru próflausir. Annar, piltur um tvítugt, var tekinn í miðborginni þar sem hann ók gegn einstefnu en hinn í Hafnarfirði. Sá síðarnefndi, karl á fertugsaldri, ók bíl sem var ótryggður og því voru skráningarnúmerin fjarlægð.