11 Júní 2007 12:00
Fjórtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn var stöðvaður á föstudag, tíu á laugardag og þrír á sunnudag. Átta voru teknir í Reykjavík, þrír í Mosfellsbæ og einn í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.
Þetta voru þrettán karlar og ein kona á fertugsaldri en hún hefur alloft áður komið við sögu hjá lögreglu og var líka tekin fyrir ölvunarakstur í síðustu viku. Fjórir karlanna eru undir tvítugu, fimm eru á þrítugsaldri, þrír eru á fertugsaldri og einn á fimmtugsaldri. Tveir þeirra höfðu aldrei öðlast ökuréttindi og fimm höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en einn þeirra var jafnframt á stolnum bíl.
Lögreglan stöðvaði fjóra aðra ökumenn um helgina sem höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Einn þeirra er 16 ára en sá var á bifhjóli og með farþega en hvorugur var með hjálm.