5 September 2023 11:02

Það helsta

  • Flest brot yfir helgar í sumar voru þjófnaðir (528 brot) og akstur án ökuréttinda (334 brot)
  • Líkamsárásir og -meiðingar voru 9% fleiri en yfir sama tímabil í fyrra og eignaspjöll 18% fleiri
  • Rúmlega þriðjungi færri kynferðisbrot voru tilkynnt yfir tímabilið samanborið við síðustu tvö ár þar á undan.

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um brot um helgar á sumarmánuðunum hefur nú verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Í skýrslunni má finna upplýsingar um fjölda tilkynninga um brot til lögreglu um helgar í júní, júlí og ágúst.

Heildarfjöldi tilkynntra brota til lögreglu um helgar í sumar voru 4.864 eða 5% færri en í fyrra. Algengast var að tilkynnt var um þjófnað (528 brot), akstur án réttinda (334 brot), eignaspjöll (407 brot), ölvunarakstur (342 brot), akstur undir áhrifum ávana-, fíkniefna eða lyfja (285 brot), minniháttar líkamsárás (286 brot) og varsla og meðferð fíkniefna (221 brot).

Í skýrslunni er skoðuð sérstaklega þróun nokkurra brota þ.m.t. líkamsárása/-meiðinga, kynferðisbrota, innbrota, þjófnaða og eignaspjalla í ár samanborin við sama tímabil síðustu tvö ár þar á undan.  Sjá má að tilkynningar um þjófnað voru færri um helgar í ár en síðustu tvö ár. Þá voru innbrot um helgar fjórðungi færri en í fyrra. Hins vegar fjölgaði tilkynningum um líkamsárásir og -meiðingar um 9% frá því í fyrra sumar og eignaspjöll um 18%.

Þá var tilkynnt um færri kynferðisbrot en síðustu 2 ár (yfir þriðjungi færri), en 44 tilkynningar bárust  lögreglu á þessu tímabili í samanburði við um 70 tilkynnt brot síðustu 2 ár á undan. Fyrirvari er við þá tölu, þar sem þróun síðustu ára hefur verið sú að um helmingur þessara brota er tilkynnt a.m.k. meira en 3 vikum eftir að brotið átti sér stað og um þriðjungur a.m.k. hálfu ári síðar.

Skýrslan er aðgengileg hér .

 

Um gögnin

Gögnin voru tekin út 28.08.2023. Miðað er við tíma brots, þ.e. að brota hafi átt sér stað um helgar yfir sumarmánuðina. Um er að ræða 52 daga öll þrjú árin. Hraðakstursbrot eru ekki meðtalin og helgi er skilgreind sem fimmtudagur til sunnudags. Hafa verður í huga að hluti kynferðisbrota er tilkynntur einhverju eftir að þau áttu sér stað. Innbrot ná yfir öll innbrot, þ.e. í ökutæki, fyrirtæki og heimili.

Nánari upplýsingar Eygló Harðardóttir, verkefnisstjóri aðgerða gegn ofbeldi, eyglohardar@logreglan.is  og Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur á gagnavísinda- og upplýsingadeild, gudbjorgs@logreglan.is