24 Nóvember 2006 12:00

Hálfþrítugur karlmaður, sem var handtekinn eftir ólæti um borð í flugvél í gærkvöld, bar við minnisleysi þegar hann var spurður um háttalag sitt. Maðurinn, sem var færður til skýrslutöku hjá lögreglunni í Reykjavík í dag, var að angra farþega í áðurnefndu flugi og þurfti flugstjóri vélarinnar að taka aukahring af þeim sökum áður en hann gat lent á áfangastað. Vélin var í aðflugi og með hjólin niðri þegar hinn svokallaði flugdólgur lét sem verst. Lendingin tókst samt giftusamlega en um borð voru allmargir farþegar.

Flugdólgurinn lét áfram ófriðlega eftir að vélin var lent og þurfti að beita hann valdi til að koma honum á lögreglustöð og í fangaklefa. Maðurinn, sem hefur alloft áður komist í kast við lögin, var ölvaður.

.