9 Janúar 2007 12:00

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust nokkrar kvartanir vegna flugelda í gær og því er rétt að rifja upp að almenn notkun þeirra er aðeins leyfð frá 28. desember til 6. janúar. Fólk er beðið um að virða það. Enn fleiri kvartanir bárust vegna barna og unglinga sem voru að sprengja svokallaða kínverja. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að brýna það fyrir börnum sínum að meðhöndlun þeirra getur verið stórhættuleg eins og dæmin sanna.

Rúður voru sprengdar á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gær en af því hlaust nokkuð tjón. Engan sakaði en lögreglan vill ítreka varnaðarorð sín sem að framan voru sögð. Þá eru líka brögð að því að börn og unglingar búi til svokallaðar rörasprengjur. Þær eru sömuleiðis stórhættulegar.