5 Október 2004 12:00

Laugardaginn 25. september síðastliðinn var haldin umfangsmikil flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli.

Aðdragandi æfingarinnar var nokkuð langur og hefur Lögreglan í Reykjavík (LR) haft fulltrúa í undirbúningshópi sem starfað hefur síðan árið 2002. Hópurinn hefur starfað undir stjórn flugmálayfirvalda og með aðkomu viðbragðsaðila.

Tilgangur með æfingunni var að samhæfa og styrkja störf viðbragðsaðila ef vá yrði á flugvellinum og kanna þannig hvort þau drög sem samin hafa verið af undirbúningshópi um aðgerðir endurspegli þá þörf á aðgerðum sem slíkt atvik myndi kalla á.

Ágúst Svansson aðalvarðstjóri (til hægri á mynd) sá að mestu um undirbúning fyrir æfinguna. Með honum á myndinni er Rögnvaldur Ólafsson varðstjóri hjá RLS sem einnig kom að undirbúningnum. Þeir félagar voru síðan í eftirlitshlutverki á meðan æfingunni stóð.

Samkvæmt lögum er það lögreglustjórinn í Reykjavík sem fer með stjórn aðgerða í sínu umdæmi.

Starf viðbragðsaðila var skipulagt eftir viðbragðsfyrirkomulagi almannavarna (SÁBF: Stjórnun, áætlanir, bjargir og framkvæmd) og var stjórnendahlutverki skipt á milli viðbragðsaðila.

Í stuttu máli má segja að skipulag á stjórn aðgerða sé tvíþætt: almennar aðgerðir á vettvangi sem lúta sérstakri stjórn (vettvangstjórn) og aðgerðarstjórn sem er einskonar bakland fyrir vettvangsstjórnina.

Skipulag á vettvangi:

Hér sést vettvangsstjórn aðgerðanna en framkvæmd æfingarinnar hvíldi mest á hennar herðum.                           Bogi Sigvaldason vettvangsstjóri er annar frá hægri á myndinni.

Vettvangsstjóri á æfingunni var Bogi Sigvaldason frá LR og honum til aðstoðar var Jóhann Karl Þórisson sem einnig er frá LR. Innan vettvangsstjórnar eru síðan fjórir verkþættir sem lúta sérstakri stjórn þ.e. björgunarstörf, aðhlynningarstörf, flutningur á slösuðum og gæslustörf.

Eitt af hlutverkum lögreglu var gæslustjórn sem felur m.a. í sér stjórn á innri og ytri gæslu. Hér sést Árni Friðleifsson gæslustjóri (lengst til hægri) gefa lögreglumönnum fyrirmæli um aðgerðir.

Aðgerðarstjórn.

Til að aðstoða vettvangsstjórn við sínar aðgerðir er sett upp sérstök aðgerðarstjórn sem heldur utan um framkvæmdina og tryggir að vettvangsstjórnin eigi kost á þeim aðföngum (mannafla og tækjum) sem nauðsynleg eru til að verkefnið gangi upp. Að þessu sinni var aðgerðarstjórn í höndum Karl Steinars Valssonar hjá LR en önnur stjórnunarhlutverk í aðgerðarstjórn voru í höndum Hrólfs Jónssonar hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Friðriks Smára Björgvinssonar hjá Lögreglunni í Kópavogi og Egils Bjarnasonar hjá Lögreglunni í Hafnarfirði. Auk þeirra störfuðu í aðgerðarstjórn fulltrúar frá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, Rauða krossinum og Landsbjörgu auk lögreglumanna frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar.

Karl Steinar Valsson aðgerðarstjóri ásamt Agli Bjarnasyni

Talið er að a.m.k. 500 manns hafi komið að verkefninu. Þar af voru um 40 lögreglumenn sem flestir komu frá LR en einnig frá lögregluliðum í nágrannasveitarfélögunum og frá embætti Ríkislögreglustjórans.

Þátttakendur í æfingunni voru á öllum aldri og skemmtu sér margir vel.

Aðgerðin gekk vel fyrir sig í heild sinni. Sett hafði verið á svið slys þar sem flugvél með 90 farþegum hafði hlekkst á í flugtaki. Mikið reyndi á samstarf og skipulagningu á æfingunni og er óhætt að segja að vel hafi gengið að ráða við verkefnið. Ýmis atriði komu fram sem hægt er að lagfæra og draga af lærdóm. Á næstu vikum verður síðan viðbragðsáætlunin yfirfarin og tekin formlega í notkun.

Hér má sjá lögreglumenn flytja ,,slasaða“ á æfingunni