18 Desember 2006 12:00
Það er fremur fátítt að beita þurfi fólk valdi til að koma því undir læknishendur eftir umferðaróhapp en sú var þó raunin um helgina. Málavextir voru þeir að lögreglan í Reykjavík var kölluð til þegar bíll fór út af veginum í útjaðri umdæmisins og hafnaði í skurði. Tvennt var í bílnum, karl og kona á fertugsaldri og voru bæði með sjáanlega áverka þegar að var komið.
Reyndar var lögreglan ekki fyrst til aðstoðar því aðrir vegfarendur komu strax til hjálpar. Fólkið í bílnum brást hins vegar ókvæða við og hótaði þeim öllu illa. Ekki tók betra við þegar lögreglan kom á vettvang og svo fór að karlmaðurinn var handtekinn og fluttur í lögreglubíl á slysadeild. Konan fór sömuleiðis á slysadeild en henni var komið þangað í sjúkrabifreið en lögreglumaður var hafður með í för.
Eftir að gert var að sárum þeirra á slysadeild var fólkið vistað í fangageymslu lögreglunnar enda voru bæði maðurinn og konan í annarlegu ástandi. Í fórum mannsins fundust fíkniefni og þá fannst eilítið magn af áfengi í bíl þeirra.