6 Febrúar 2022 19:21
Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins vekur athygli á því að lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna vegna aftakaveðurs sem er spáð í nótt og fyrramálið. Appelsínugul viðvörun gildir frá 1.30–4 og rauð viðvörun frá kl. 4-8. Spáð er suðaustan stormi og hríð og síðan suðaustan roki eða ofsaveðri. Jafnframt er spáð snjókomu seint í nótt og éljum í fyrramálið.
Aðgerðastjórn hvetur fólk eindregið til að halda sig heima á höfuðborgarsvæðinu á meðan þetta gengur yfir og alls ekki vera á ferðinni að nauðsynjalausu. Þá er mikilvægt að hafa í huga að þegar veðrinu slotar er viðbúið að samgöngur verði enn í ólestri, en reynslan sýnir að það tekur töluverðan tíma að ryðja allar húsagötur í umdæminu. Veðrið mun einnig hafa áhrif á ferðir strætisvagna og er fólk hvatt til að fylgjast með hvenær þeir verða aftur á ferðinni á morgun og þá nýta sér þjónustu þeirra þegar þar að kemur. Það er því ítrekað að drjúgan tíma mun taka að ryðja húsagötur og er fólk beðið um að virða það.
Auk samgangna er fyrirsjáanleg víðtæk truflun skólahalds og í atvinnulífinu vegna þessa aftakaveðurs. Atvinnurekendur eru sérstaklega beðnir um að tryggja það að vaktavinnufólk og aðrir starfsmenn komi ýmist fyrr eða seinna til vinnu m.t.t. veðurspár og færðar. Þetta gildir líka um mikilvæga starfsemi, sjúkrahús, velferðarþjónustu o.s.frv. Þá liggur fyrir að sund og íþróttamannvirki á vegum sveitarfélaganna verða lokuð a.m.k. til hádegis á morgun.
Að síðustu ítrekar aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins að fólk haldi sig heima á morgun og fylgist mjög vel með veðri, færð og tilkynningum frá almannavörnum. Sýnum þolinmæði og tillitssemi og förum varlega í hvívetna.