3 Janúar 2014 12:00

Það gerist reglulega að lögregla er kölluð til í málum þar sem fólk framvísar fölsuðum skilríkjum. Þetta eru allskonar mál, en stundum eiga í hlut ungmenni sem freistast til þess að kaupa áfengi þrátt fyrir að hafa ekki aldur til. Í síðasta mánuði reyndi 17 ára piltur að kaupa áfengi í einni af vínbúðum ÁTVR á höfuðborgarsvæðinu. Sá týndi til vínföng, líkt og aðrir viðskiptavinir, og fór síðan að afgreiðslukassanum og hugðist greiða fyrir veigarnar. Hvort hann var borubrattur eða taugastrekktur þegar þarna var komið, vitum við ekki, en bjartsýnn var pilturinn þegar hann rétti afgreiðslumanninum skilríki eins og óskað var eftir. Samkvæmt þeim var pilturinn kominn vel á þrítugsaldur, en það sá afgreiðslumaðurinn að gat engan veginn staðist og kallaði til lögreglu. Pilturinn játaði brot sitt skýlaust, en hann átti sjálfur hin fölsuðu skilríki og hafði þar breytt fæðingarári sínu svo munaði allnokkru. Hann sagðist ekki hafa reynt þetta áður, en áfengið ætluðu pilturinn og skólafélagar hans að drekka á skólaskemmtun síðar þennan sama dag. Í framhaldinu var piltinum ekið til síns heima og foreldrum hans gerð grein fyrir málinu. Ekki er vitað hvort hann fór á ballið um kvöldið.