20 Janúar 2023 12:01

Lögreglan minnir á að mikill vatnselgur er víða á götum á höfuðborgarsvæðinu. Ökumenn eru hvattir til að aka varlega og flýta sér hægt. Einnig er varað sérstaklega við hálku, en flughálka er líkleg til að myndast á blautum klaka og ættu allir vegfarendur að hafa það hugfast. Skilaboð um að fólk hugi að niðurföllum og hreinsi frá þeim eru ítrekuð, ekki síst niðurföll á svölum húsa en þau eiga það til að gleymast. Rík ástæða er líka til að vara fólk við því að fara út á ís á vötnum og í fjörum. Forráðamenn eru beðnir um að brýna fyrir börnum sínum hættuna sem af því stafar.

Gul viðvörun vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu er í gildi til kl. 6 í fyrramálið (aðfaranótt laugardags) vegna asahláku.