10 Mars 2005 12:00

Nýverið voru kynntar í Ráðhúsi Reykjavíkur niðurstöður Rannsókna og greiningar á vímuefnanotkun unglinga í Reykjavík. Benda niðurstöður til þess að forvarnastarf síðustu ára hafi skilað umtalsverðum árangri. Meðal nemenda í 10. bekk hefur drykkja minnkað úr 44% árið 1998 í 26% árið 2004. Þá hefur hassneysla minnkað úr 21% árið 1998 í 11% árið 2004.

Forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík hefur í mörg ár stuðlað að forvörnum á sviði vímuvarna. Fulltrúi lögreglunnar sat í SAF- nefndinni sem er forveri forvarnanefndar Reykjavíkurborgar og auk þess hefur forvarnadeild unnið markvisst að forvörnum bæði á vegum lögreglunnar og eins í samstarfi fjölbreyttan hóp samstarfsaðila. Árangur þessa starfs er nú að koma í ljós.

Frá árinu 1998 hefur forvarnadeild lögreglunnar í samstarfi við félagsþjónustuna og Samhjálp boðið upp á fíkniefnafræðsluna Hættu áður en þú byrjar (Marita). Frá upphafi hafa yfir 25.000 nemendur séð fræðsluna og auk mikils fjölda foreldra og kennara. Í Reykjavík hafa nánast allir grunnskólar boðið upp á fræðsluna hvert einasta skólaár. Frá því farið var að bjóða upp á þessa fræðslu árið 1998 „hefur hassneysla og ölvun nemenda í 9. bekk í Reykjavík dregist mjög saman. Verkefnið gæti þannig átt þátt í að vímuefnaneysla hefur farið minnkandi meðal nemenda í 9. bekk í Reykjavík. Væri það enn eitt dæmi um að forvarnastarf … skilaði árangri“ (Sjá skýrsluna Forvarnir – virka þær?, 2004:114-115).

Forvarnadeild lögreglunnar hefur tekið þátt í starfsemi SAMAN-hópsins frá stofnun hans kringum áramót 1999-2000. Þeir sem standa að hópnum eiga það sammerkt að vinna á einhvern hátt með og fyrir börn og unglinga. Hópurinn vinnur að því að vekja athygli á þeirri ógn sem börnum og unglingum stafar af útbreiðslu áfengis og vímuefna í samfélaginu, beina athygli foreldra að ábyrgð þeirra á uppeldi barna sinna og hvetja til jákvæðra samskipta fjölskyldunnar. Lögð er áhersla á að foreldrar verji sem mestum tíma með börnum sínum.

Þá rekur lögregla ásamt samstarfsaðilum svokallað Miðbæjarathvarf. Markmiðið með starfi athvarfsins er að vinna gegn ólöglegri útivist barna og fylgjast með ástandi unglinga með það í huga að sporna gegn neyslu á áfengi og öðrum vímuefnum. Miðbæjarathvarfið hóf starfsemi sína árið 1995 en á þeim tíma ríkti ófremdarástand í miðborg Reykjavíkur um helgar sem rekja mátti til hópamyndana unglinga og drykkju. Nú heyrir til undantekninga að unglingar safnist saman í miðborginni um helgar, ástand við lok samræmdra prófa hefur skánað til muna og svo mætti lengi telja.

Í deildinni starfa 8 hverfislögreglumenn í mismunandi hverfum borgarinnar og sjá þeir m.a. um málefni ósakhæfra barna. Starf þeirra hefur oft á tíðum gífurlegt forvarnagildi varðandi vímuefnaneyslu þessara ungmenna.

Forvarnastarf er fjárfesting til framtíðar. Árangurinn kemur ekki í ljós samstundis. Því er mjög mikilvægt fyrir þá sem vinna að forvörnum að finna að starfið skilar árangri með jafn áþreifanlegum hætti sem niðurstöður Rannsókna og greiningar gefa til kynna. Til að tryggja áframhaldandi árangur þurfa allir að leggjast á eitt; lögregla, skólar og aðrar stofnanir samfélagsins, yfirvöld, félagasamtök, fjölmiðlar, foreldrar og síðast en ekki síst sjálf æska landsins. Gleymum því ekki að það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn.