Ásmundur Einar Daðason, Halla Bergþóra Björnsdóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
4 September 2020 09:51
Undanfarnar vikur og mánuði hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnt auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Mikilvægt er að grípa snemma inn í til að vernda börn í viðkvæmri stöðu, ekki síst þegar félagslegt álag getur aukist vegna áhrifa COVID-19 faraldursins á fjárhag heimilanna og fjölskyldulíf. Lögreglan hefur haft verulegar áhyggjur af þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna, vegna ofbeldismyndbanda sem ungmenni eru að taka upp og deila á sérstökum vefsvæðum og mála þar sem hnífar koma við sögu hjá ungum gerendum. Þá sýnir nýleg rannsókn að íslensk ungmenni upplifa frekar ofbeldi en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum. Um er að ræða verkefni sem hófst í vor og hefur staðið yfir í sumar, en embættið hefur notið mikils stuðnings og velvilja frá bæði félagsmála- og dómsmálaráðuneytunum, sem hafa lagt til fjármuni vegna þessa. Enn fremur settu ráðuneytin á fót aðgerðateymi í vor, en því var ætlað að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Teymið hefur þegar sent frá sér áfangaskýrslu, en í henni er m.a. lagt til að stuðningur við börn sem eru í viðkvæmri stöðu verði aukinn og áhersla á vernd þeirra efld. Liður í því verði að fjölga úrræðum fyrir gerendur ofbeldisbrota sem eru börn að aldri.
Fulltrúar lögreglunnar og ráðuneytanna komu saman í gær þar sem farið var yfir stöðuna og gerð grein fyrir þeirri vinnu sem hefur staðið yfir undanfarna mánuði í tengslum við verkefnið. Þar skrifuðu jafnframt Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri og ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir undir samkomulag um styrk vegna þessa. Á hinni myndinni má sjá Unnar Þór Bjarnason varðstjóra, en hann sagði fundargestum frá áhugaverðu verkefni sem lögreglumenn í Kópavogi og Breiðholti hafa staðið fyrir frá því á síðasta ári og snýr að þvi að efla tengslin við unga fólkið.

Unnar Þór Bjarnason var einn þeirra sem var með kynningu á fundinum í gær.