26 Desember 2022 21:14

Þokkalegasta veður er nú í umdæminu og að greiðast úr umferð eftir öll þau vandamál sem upp hafa komið, einkum á vegum í kring um Vík í Mýrdal.  Vegagerðin hefur verið með fylgdarakstur milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs eftir kl. 14:00 í dag en vegurinn þar á milli verið lokaður almennri umferð. Veginum frá Hvolsvelli til Víkur verður lokað kl. 22:00 í kvöld.

Veðurspá gerir ráð fyrir því að lægð sem kemur upp að suðvesturströndinni nú í kvöld valdi töluverðri úrkomu og að akstursskilyrði muni versnaðí  kvöld og nótt enda mikill laus snjór fyrir og ef hvessir samfara meiri snjókomu má búast við að skyggni til aksturs verði lítið, einkum á heiðum, t.d. Hellisheiði.

Tvö hús að Höfðabrekku, austan Víkur, voru rýmd vegna mögulegrar snjóflóðahættu um kl. 19:00 í kvöld.  Um er að ræða hótelrými og þjónustuhús og voru gestir færðir í annað húsnæði á vegum þessa sama hótels.

Björgunarsveitarmenn, aðrir en þeir sem manna lokunarpósta eru nú komnir í kærkomna hvíld eftir at síðustu daga og standa vonir til þess að liðsmenn þeirra fái frí frá störfum sínum um sinn.

Landhelgisgæslan fór eftirlitsferð austur með suðurströndinni í dag sem hluta af leit að manni sem talið er að lent hafi í sjónum í Þykkvabæjarfjöru þann 16. desember s.l.